Framkvæmdin sem hér um ræðir felst í nýbyggingu 220 kV raflínu, Hólasandslínu 3, frá Akureyri að Hólasandi.
Nýjustu upplýsingar
25.4.2018
Nú stendur yfir vinna við þann þátt sem er megináfanginn í umhverfismatsferlinu, þ.e. gerð frummatsskýrslu, þar sem hið eiginlega umhverfismat fer fram. Í því felst meðal annars frágangur á öllum rannsóknarskýrslum og yfirfærsla niðurstaðna þeirra í matinu. Þá er unnið að nánari útfærslum valkosta og mögulegum breytingum m.t.t. þeirra athugasemda sem fram hafa komið í ferlinu hingað til. Að þessari vinnu koma ýmsir sérfræðingar frá Landsneti, ráðgjöfum og rannsakendur. Þegar frummatsskýrslan er tilbúin verður hún auglýst og hafa allir tækifæri á að koma að athugasemdum. Landsnet mun í tengslum við auglýsinguna halda kynningarfundi með landeigendum, verkefnaráði og almenningi.
Um verkefnið
Markmiðið með Hólasandslínu 3, 220 kV raflínu milli Akureyrar og Hólasands norðan við Mývatn, er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi.Með auknum stöðugleika minnka líkur á spennusveiflum í kerfinu, sem geta og hafa valdið tjóni á raftækjum notenda á landsbyggðinni. Framkvæmdirnar eru einnig mikilvægar fyrir flutningskerfi landsins í heild sinni þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi.
Lagnaleiðin er 70 – 80 km, mislöng eftir valkostum. Hún er að mestu leyti fyrirhuguð samhliða Kröflulínu 1, en víkur frá henni í Eyjafirði og á Hólasandi.Greining hefur verið gerð á því hversu langa jarðstrengi megi leggja innan meginflutningskerfisins á grundvelli tæknilegra forsendna og er niðurstaðan fyrir Hólasandslínu 3 að hámarkslengd jarðstrengs geti verið um 12 km.
Á línuleiðinni eru tvö svæði, í Eyjafirði og Laxárdal, sem falla að viðmiðum í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sem vísa til þess hvenær lagt skuli mat á umhverfisáhrif jarðstrengja. Í undirbúningsferlinu hafa verið skoðaðir valkostir sem lúta að jarðstrengjum og loftlínum á þessum svæðum og eru þeir m.a. lagðir fram sem valkostir í tillögu að matsáætlun. Aðrir raunhæfir kostir sem koma í ljós við framvindu verkefnisins, til dæmis frá hagsmunaaðilum, verða teknar til skoðunar og geta komið til álita sem valkostir við mat á umhverfisáhrifum.
Aðalvalkostur verður lagður fram í frummatsskýrslu á grundvelli niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum og frekara samráðs.
Samráðsferli
Það er mikilvægt að vinna að undirbúningi Hólasandslínu 3 í sem bestu samráði og samvinnu við samfélagið í heild sinni. Í því markmiði höfum við sett af stað verkefnaráð, samráðsvettvang þar sem helstu hagsmunaðaðilar fyrir utan landeigendur koma saman með reglulegu millibili. Samráð við landeigendur verður með svipuðum hætti, í formi reglulegra kynninga- og samráðsfunda auk annara samskiptaleiða sem best henta hverju sinni. Auk þessa verða haldnir opnir kynningar- og upplýsingfundir fyrir íbúa og alla þá sem áhuga hafa á málinu.
Markmiðið með stofnun þessar vettvanga er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum. Við hvetjum alla aðila til að fylgjast með hér á heimasíðunni þar sem upplýsingar um framvindu verkefnsins verða settar inn sem og fundargerðir og annað sem viðkemur verkefninu.
Hægt er senda inn fyrirspurnir og ábendingar undir „senda ábendingar“ og verður því svarað eins og fljótt og við verður komið og birt undir hnappnum "Spurt og svarað" hér á síðunni. Bendum einnig á fésbókarsíðu Landsnets en þar eru nýjustu fréttir er varða starfsemi fyrirtækisins uppfærðar daglega.